Sigmund Freud
Sigmund Freud var austurrískur geðlæknir og taugafræðingur og einn kunnasti sálfræðingur allra tíma. Hann var upphafsmaður sálgreiningar og höfðu kenningar hans mikil áhrif á hugmyndir manna um sálarlífið og gera á margan hátt enn í dag.
Freud fæddist í Freiberg sem þá tilheyrði Austurrísk-Ungverska keisaradæminu, en í dag tilheyrir Tékklandi.
Þegar Freud var fjögurra ára flutti fjölskylda hans til Vínarborgar.
Að loknu hefðbundnu námi lagði Freud stund á læknisfræði. Hann kynntist lækninum og lífeðlisfræðingnum Josef Breuer sem aftur kynnti hann fyrir einum sjúklingi sínum sem þjáðist af svokallaðri sefasýki. Veikindi sjúklingsins lýstu sér í því að hún gat ekki talað sitt eigið móðurmál (þýsku), en gat talað ensku og frönsku. Hún gat heldur ekki drukkið vatn og var tímabundið lömuð. Ekki var hægt að finna neinar líffræðilegar skýringar á þessu ástandi, en eftir að Breuer hafði dáleitt hana hurfu öll sjúkdómseinkenni. Freud fannst þetta mjög áhugavert og hélt í framhaldsnám til Parísar þar sem hann kynnti sér m.a. sefasýki og dáleiðslu.
Að loknu námi árið 1886 hélt Freud aftur til Vínar, giftist og opnaði einkastofu. Sérhæfði hann sig í tauga- og heilasjúkdómum. Þar þróaði hann hina svokölluðu frjálsu hugrenningaraðferð, sem fólst m.a. í því að sjúklingarnir opnuðu sig og töluðu um hvaðeina sem þeim datt í hug. Freud vann síðan með þær upplýsingar til að finna lausn á vanda þeirra.
Árið 1900 gaf hann út bókina Túlkun drauma (Die Traumdeutung) þar sem hann birti kenningar sínar um hinn dulvitaða huga. Skrifaði hann alla tíð mikið um kenningar sínar, en margar þeirra ollu mikilli hneykslun, einkum sumar kenningar hans um kynhvötina.
Árið 1902 var Freud útnefndur prófessor við háskólann í Vín og ekki leið á löngu uns kenningar hans fóru að verða leiðandi á sviði huglækninga út um allan hinn vestræna heim.
Freud var af gyðingaættum og þegar nasistar fóru að láta til sín taka í Evrópu urðu bækur hans úthrópaðar af nasistum og lentu á skipulögðum bókabrennum þeirra. Það breytti engu þótt Freud væri yfirlýstur trúleysingi. Þegar nasistar komust til valda í Austurríki var vegabréfið tekið af Freud, en vegna mikils þrýstings erlendis frá var honum leyft að flytja úr landi árið 1938 og settist hann að á Englandi. Lést hann þar í september árið 1939 sama mánuð og Heimsstyrjöldin síðari braust út.
Unnið upp úr Wikipediu.